Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 142

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

Jeremía 49:7-11

Um Edóm. Svo segir Drottinn allsherjar: Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin?

Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum.

Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir.

10 En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann.

11 Yfirgef munaðarleysingja þína, _ ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig!

Bréf Páls til Efesusmanna 4:17-5:2

17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,

18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.

19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.

20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.

21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:

22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,

23 en endurnýjast í anda og hugsun og

24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.

26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.

27 Gefið djöflinum ekkert færi.

28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.

29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.

30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.

31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.

32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.

Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society