Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
3 En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb.
2 Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki.
3 Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."
4 En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."
6 Því næst mælti hann: "Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs." Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.
12 Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli.
13 Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.
14 Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál.
15 Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.
16 Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum.
by Icelandic Bible Society