Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 24:34-38

34 Hann mælti: "Ég er þjónn Abrahams.

35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna.

36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á.

37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá,

38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.`

Fyrsta bók Móse 24:42-49

42 Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara,

43 þá sjá, ég stend við þessa lind, og fari svo, að sú stúlka, sem kemur hingað til að sækja vatn og ég segi við: Gef mér að drekka vatnssopa úr skjólu þinni, _

44 svarar mér: Drekk þú, og líka skal ég ausa úlföldum þínum vatn, _ hún sé sú kona, sem Drottinn hefir fyrirhugað syni húsbónda míns.`

45 En áður en ég hafði lokið þessu tali við sjálfan mig, sjá, þá kom Rebekka út þangað með skjólu sína á öxlinni og gekk niður að lindinni og bar upp vatn. Og ég sagði við hana: ,Gef mér að drekka!`

46 Og óðara tók hún skjóluna niður af öxlinni og sagði: ,Drekk þú, og líka skal ég brynna úlföldum þínum.` Og ég drakk, og hún brynnti líka úlföldunum.

47 Þá spurði ég hana og mælti: ,Hvers dóttir ert þú?` Og hún sagði: ,Dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum.` Lét ég þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar.

48 Og ég laut höfði og bað til Drottins, og ég lofaði Drottin, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda míns syni hans til handa.

49 Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri."

Fyrsta bók Móse 24:58-67

58 Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: "Vilt þú fara með þessum manni?" Og hún sagði: "Ég vil fara."

59 Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans.

60 Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: "Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!"

61 Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar.

62 Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu.

63 Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma.

64 Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.

65 Og hún sagði við þjóninn: "Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?" Og þjónninn svaraði: "Það er húsbóndi minn." Þá tók hún skýluna og huldi sig.

66 Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört.

67 Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.

Sálmarnir 45:10-17

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

Ljóðaljóðin 2:8-13

Heyr, það er unnusti minn! Sjá, þar kemur hann, stökkvandi yfir fjöllin, hlaupandi yfir hæðirnar.

Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir inn um gluggann, gægist inn um grindurnar.

10 Unnusti minn tekur til máls og segir við mig: "Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!

11 Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda.

12 Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.

13 Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!

Bréf Páls til Rómverja 7:15-25

15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.

16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.

17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.

18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.

19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.

20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.

21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.

22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,

23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.

24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?

25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.

Matteusarguðspjall 11:16-19

16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:

17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`

18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`

19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."

Matteusarguðspjall 11:25-30

25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.

26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society