M’Cheyne Bible Reading Plan
25 Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur,
2 og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans.
3 Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg.
4 Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.
5 Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana,
6 en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.
7 En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."
8 Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana,"
9 þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns."
10 Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.
11 Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum,
12 þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.
13 Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í sjóði þínum, annan stærri og hinn minni.
14 Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, aðra stærri og hina minni.
15 Þú skalt hafa nákvæma og rétta vog, þú skalt hafa nákvæma og rétta efu, til þess að þú lifir lengi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
16 Því að hver sá, er slíkt gjörir, hver sá er ranglæti fremur, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.
17 Minnstu þess, hvernig Amalekítar fóru með þig á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi,
18 hvernig þeir réðust á þig á leiðinni og unnu á þeim, er aftastir fóru, öllum þeim er þreyttir voru og aftur úr drógust, þegar þú varst orðinn lúinn og uppgefinn, _ og óttuðust ekki Guð.
19 Fyrir því skalt þú, þegar Drottinn Guð þinn veitir þér hvíld fyrir öllum óvinum þínum allt í kringum þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, afmá nafn Amalekíta af jörðinni. Gleym því ekki.
116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.
3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"
5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.
10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."
12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.
15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
52 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.
2 Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!
3 Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.
4 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.
5 Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.
6 Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"
7 Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"
8 Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
9 Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.
10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.
11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins!
12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.
13 Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.
14 Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum _ svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum _
15 eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.
22 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.
2 Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
3 Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.
4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.
5 Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.
6 Og hann sagði við mig: "Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms.
7 Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar."
8 Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta.
9 Og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð."
10 Og hann segir við mig: "Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd.
11 Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram.
12 Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.
13 Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn.
14 Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.
15 Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.
16 Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan."
17 Og andinn og brúðurin segja: "Kom þú!" Og sá sem heyrir segi: "Kom þú!" Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.
18 Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.
19 Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.
20 Sá sem þetta vottar segir: "Já, ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!
by Icelandic Bible Society