M’Cheyne Bible Reading Plan
6 Þetta eru þá skipanir þær, lög og ákvæði, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið, að þér skylduð læra og breyta eftir í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að fá það til eignar,
2 svo að þú óttist Drottin Guð þinn og varðveitir öll lög hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig, bæði þú sjálfur og sonur þinn og sonarsonur þinn, alla ævidaga þína og svo að þú verðir langlífur.
3 Heyr því, Ísrael, og gæt þess að breyta eftir þeim, svo að þér vegni vel og yður megi fjölga stórum, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér, í landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.
4 Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!
5 Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.
6 Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst.
7 Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.
8 Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna
9 og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.
10 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þér, stórar og fagrar borgir, sem þú hefir ekki reist,
11 og hús full af öllum góðum hlutum, án þess að þú hafir fyllt þau, og úthöggna brunna, sem þú hefir eigi út höggvið, víngarða og olíutré, sem þú hefir ekki gróðursett, og þú etur og verður saddur,
12 þá gæt þú þín, að þú gleymir ekki Drottni, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
13 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja.
14 Eigi skuluð þér elta neina aðra guði af guðum þjóða þeirra, er umhverfis yður búa _,
15 því að Drottinn Guð þinn, sem býr hjá þér, er vandlátur Guð, _ til þess að eigi upptendrist reiði Drottins Guðs þíns í gegn þér og hann eyði þér úr landinu.
16 Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.
17 Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt.
18 Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum,
19 með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið.
20 Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: "Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?"
21 þá skalt þú segja við son þinn: "Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi.
22 Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi.
23 Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum.
24 Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa.
25 Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss."
89 Etans-maskíl Esraíta.
2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,
3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.
4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]
6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]
39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.
40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.
41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.
42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.
43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.
44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.
45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.
46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]
47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?
48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.
49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]
50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?
51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,
52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________
53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.
34 Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex!
2 Drottinn er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar.
3 Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.
4 Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré.
5 Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum.
6 Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi.
7 Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti.
8 Því að nú er hefndardagur Drottins, endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar.
9 Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki.
10 Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi. Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu.
11 Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar.
12 Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu.
13 Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði.
14 Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli.
15 Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út, verpa þar eggjum og unga þeim út í skugganum. Gleður einar skulu flykkjast þar hver til annarrar.
16 Leitið í bók Drottins og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur Drottins hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman.
17 Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.
4 Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."
2 Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.
3 Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.
4 Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.
5 Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.
6 Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.
7 Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.
8 Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.
9 Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,
10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:
11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.
by Icelandic Bible Society