Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 29

29 Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja.

Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins.

Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað.

Þá sagði Jakob við þá: "Kæru bræður, hvaðan eruð þér?"

Þeir svöruðu: "Vér erum frá Harran." Og hann mælti til þeirra: "Þekkið þér Laban Nahorsson?" Þeir svöruðu: "Já, vér þekkjum hann."

Og hann mælti til þeirra: "Líður honum vel?" Þeir svöruðu: "Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð."

Og hann mælti: "Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga."

Þeir svöruðu: "Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu."

Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá.

10 En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns.

11 Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum.

12 Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum.

13 En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína.

14 Þá sagði Laban við hann: "Sannlega ert þú hold mitt og bein!" Og hann var hjá honum heilan mánuð.

15 Laban sagði við Jakob: "Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera."

16 En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri.

17 Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum.

18 Og Jakob elskaði Rakel og sagði: "Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína."

19 Laban svaraði: "Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér."

20 Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar.

21 Og Jakob sagði við Laban: "Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar."

22 Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu.

23 En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni.

24 Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans.

25 En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?"

26 Og Laban sagði: "Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri.

27 Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár."

28 Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína.

29 Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu.

30 Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár.

31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja.

32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: "Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig."

33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: "Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son." Og hún nefndi hann Símeon.

34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: "Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu." Fyrir því nefndi hún hann Leví.

35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: "Nú vil ég vegsama Drottin." Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.

Matteusarguðspjall 28

28 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.

Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann.

Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.

Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta.

Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.

Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður."

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.

10 Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."

11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði.

12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá:

13 "Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.`

14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir."

15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.

16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.

17 Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.

18 Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.

19 Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,

Esterarbók 5

En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar.

En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum.

Og konungur sagði við hana: "Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal þér það veita."

Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum."

Þá sagði konungur: "Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið." Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið,

sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: "Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester og sagði: "Bæn mín og beiðni er þessi:

Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað."

Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai.

10 Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína.

11 Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum.

12 Og Haman mælti: "Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum.

13 En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði."

14 Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: "Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar." Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann.

Postulasagan 28

28 Nú sem vér vorum heilir á land komnir, fengum vér að vita, að eyjan hét Malta.

Eyjarskeggjar sýndu oss einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að oss öllum, en kalt var í veðri og farið að rigna.

Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans.

Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans, sögðu þeir hver við annan: "Það er víst, að þessi maður er manndrápari, fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa, þótt hann hafi bjargast úr sjónum."

En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki.

Þeir bjuggust við, að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu, að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera.

Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við oss og hélt oss í góðu yfirlæti þrjá daga.

Svo vildi til, að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann.

Eftir þetta komu aðrir þeir, er sjúkir voru á eynni, og voru læknaðir.

10 Höfðu þeir oss í hávegum, og er vér skyldum sigla, gáfu þeir oss allt, sem vér þurftum til fararinnar.

11 Að liðnum þrem mánuðum lögðum vér til hafs á skipi frá Alexandríu, sem legið hafði við eyna um veturinn og bar merki Tvíburanna.

12 Vér tókum höfn í Sýrakúsu og dvöldumst þar þrjá daga.

13 Þaðan sigldum vér í sveig og komum til Regíum. Að degi liðnum fengum vér sunnanvind og komum á öðrum degi til Púteólí.

14 Þar hittum vér bræður, og báðu þeir oss að dveljast hjá sér í viku. Síðan héldum vér til Rómar.

15 Bræðurnir þar fréttu um oss og komu til móts við oss allt til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.

16 Er vér vorum komnir til Rómar, var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni þeim, sem gætti hans.

17 Eftir þrjá daga stefndi hann saman helstu mönnum Gyðinga. Þegar þeir voru saman komnir, sagði hann við þá: "Bræður, ekkert hef ég brotið gegn lýðnum eða siðum feðranna, en samt er ég fangi, framseldur Rómverjum í Jerúsalem.

18 Þeir yfirheyrðu mig og vildu láta mig lausan, af því á mér hvíldi engin dauðasök.

19 En Gyðingar mæltu á móti, og neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans, þó eigi svo að skilja, að ég sé að kæra þjóð mína.

20 Sakir þessa hef ég kallað yður hingað, að ég mætti sjá yður og tala við yður, því vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki."

21 Þeir svöruðu: "Vér höfum ekki fengið bréf um þig frá Júdeu, og eigi hefur heldur neinn bræðranna komið hingað og birt eða talað nokkuð illt um þig.

22 Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga, en það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt."

23 Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum.

24 Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki.

25 Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: "Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns:

26 Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

27 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

28 Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta."

30 Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society