M’Cheyne Bible Reading Plan
28 Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann: "Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum.
2 Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns.
3 Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum.
4 Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham."
5 Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú.
6 En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: "Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum,"
7 og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu.
8 Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans.
9 Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður.
10 Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran.
11 Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað.
12 Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.
13 Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: "Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum.
14 Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi.
15 Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið."
16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: "Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!"
17 Og ótta sló yfir hann og hann sagði: "Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!"
18 Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann.
19 Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz.
20 Og Jakob gjörði heit og mælti: "Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast,
21 og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð,
22 og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér."
27 Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn.
2 Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja.
3 Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu
4 og mælti: "Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð." Þeir sögðu: "Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því."
5 Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig.
6 Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: "Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar."
7 Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum.
8 Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur.
9 Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: "Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum,
10 og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt."
11 Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."
12 Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu.
13 Þá spurði Pílatus hann: "Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?"
14 En hann svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.
15 Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu.
16 Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni.
17 Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: "Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?"
18 Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann.
19 Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: "Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna."
20 En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur.
21 Landshöfðinginn spurði: "Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?" Þeir sögðu: "Barabbas."
22 Pílatus spyr: "Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?" Þeir segja allir: "Krossfestu hann."
23 Hann spurði: "Hvað illt hefur hann þá gjört?" En þeir æptu því meir: "Krossfestu hann!"
24 Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: "Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!"
25 Og allur lýðurinn sagði: "Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!"
26 Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
27 Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni.
28 Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu,
29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: "Heill þú, konungur Gyðinga!"
30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið.
31 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.
32 Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú.
33 Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður,
34 gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka.
35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér,
36 sátu þar svo og gættu hans.
37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.
38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
39 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín
40 og sögðu: "Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!"
41 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:
42 "Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann.
43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs`?"
44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.
45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns.
46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: "Elí, Elí, lama sabaktaní!" Það þýðir: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"
47 Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Hann kallar á Elía!"
48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
49 Hinir sögðu: "Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum."
50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
51 Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu,
52 grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp.
53 Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
54 Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs."
55 Þar voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.
56 Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona.
57 Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú.
58 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann.
59 Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði
60 og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.
61 María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni.
62 Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus
63 og sögðu: "Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.`
64 Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.` Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri."
65 Pílatus sagði við þá: "Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið."
66 Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
4 En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega.
2 Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk.
3 Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku.
4 Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim.
5 Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti.
6 Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið.
7 En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt.
8 Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa.
9 Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai.
10 En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það:
11 ,Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.`
12 Og Mordekai voru flutt orð Esterar.
13 Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: ,Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs.
14 Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!`
15 Þá lét Ester skila aftur til Mordekai:
16 ,Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.`
17 Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum.
27 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.
2 Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.
3 Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.
4 Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.
5 Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.
6 Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.
7 Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.
8 Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.
9 Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við
10 og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru."
11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.
12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.
14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.
15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.
16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.
17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.
18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.
19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.
20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.
22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.
23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:
24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`
25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."
27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.
28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.
29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.
30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.
31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast."
32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.
33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.
34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér."
35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.
36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.
37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.
38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.
39 Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu.
40 Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar.
41 Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu.
42 Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi.
43 En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands,
44 en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.
by Icelandic Bible Society