M’Cheyne Bible Reading Plan
8 Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði.
2 Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti.
3 Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga.
4 Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum.
5 Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir.
6 Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört,
7 og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni.
8 Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni.
9 En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina.
10 Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni.
11 Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni.
12 Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur.
13 Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt.
14 Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr.
15 Þá talaði Guð við Nóa og mælti:
16 "Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér.
17 Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni."
18 Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum.
19 Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni.
20 Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu.
21 Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: "Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört.
22 Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt."
8 Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi.
2 Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
3 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni.
4 Jesús sagði við hann: "Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
5 Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann:
6 "Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn."
7 Jesús sagði: "Ég kem og lækna hann."
8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: "Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.
9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það."
10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: "Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael.
11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki,
12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna."
13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: "Far þú, verði þér sem þú trúir." Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.
15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina.
16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann.
17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: "Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora."
18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið.
19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: "Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."
20 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."
21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."
22 Jesús svarar honum: "Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu."
23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.
24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf.
25 Þeir fara til, vekja hann og segja: "Herra, bjarga þú, vér förumst."
26 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?" Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
27 Mennirnir undruðust og sögðu: "Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum."
28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.
29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"
30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.
31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."
32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.
33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.
34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
8 Þessir eru ætthöfðingjar þeirra _ og þetta er ættarskrá þeirra _ er fóru með mér heim frá Babýlon, þá er Artahsasta konungur sat að völdum:
2 Af niðjum Pínehasar: Gersóm. Af niðjum Ítamars: Daníel. Af niðjum Davíðs: Hattús,
3 sonur Sekanja. Af niðjum Parós: Sakaría og með honum skráðir af karlmönnum 150.
4 Af niðjum Pahat-Móabs: Eljehóenaí Serajason og með honum 200 karlmenn.
5 Af niðjum Sattú: Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn.
6 Af niðjum Adíns: Ebed Jónatansson og með honum fimm tugir karlmanna.
7 Af niðjum Elams: Jesaja Ataljason og með honum sjö tugir karlmanna.
8 Af niðjum Sefatja: Sebadía Míkaelsson og með honum átta tugir karlmanna.
9 Af niðjum Jóabs: Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn.
10 Af niðjum Baní: Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn.
11 Af niðjum Bebaí: Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn.
12 Af niðjum Asgads: Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn.
13 Af niðjum Adóníkams, síðkomnir, og þessi voru nöfn þeirra: Elífelet, Jeíel og Semaja, og með þeim 60 karlmenn.
14 Af niðjum Bigvaí: Útaí og Sabbúd og með þeim 70 karlmenn.
15 Ég safnaði þeim saman við fljótið, sem rennur um Ahava, og lágum vér þar í tjöldum í þrjá daga. En er ég hugði að fólkinu og prestunum, þá fann ég þar engan af niðjum Leví.
16 Þá sendi ég eftir Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam, ætthöfðingjum, og Jójaríb og Elnatan, kennurum,
17 og bauð þeim að fara til Íddós, höfðingja í Kasifjabyggð, og lagði þeim orð í munn, er þeir skyldu flytja Íddó, bræðrum hans og musterisþjónunum í Kasifjabyggð, til þess að þeir mættu útvega oss þjónustumenn í musteri Guðs vors.
18 Og með því að hönd Guðs vors hvíldi náðarsamlega yfir oss, þá færðu þeir oss vel kunnandi mann af niðjum Mahelí Levísonar, Ísraelssonar, og Serebja og sonu hans og bræður _ átján alls,
19 og Hasabja og með honum Jesaja af niðjum Merarí, bræður hans og sonu þeirra _ tuttugu alls,
20 og af musterisþjónunum, sem Davíð og höfðingjar hans höfðu sett til að þjóna levítunum: tvö hundruð og tuttugu musterisþjóna. Þeir voru allir nefndir með nafni.
21 Og ég lét boða þar föstu við fljótið Ahava, til þess að vér skyldum auðmýkja oss fyrir Guði vorum til að biðja hann um farsællega ferð fyrir oss, börn vor og allar eigur vorar.
22 Því að ég fyrirvarð mig að biðja konung um herlið og riddara til verndar fyrir óvinum á leiðinni. Því að vér höfum sagt konungi: "Hönd Guðs vors hvílir yfir öllum þeim, sem leita hans, þeim til góðs, en máttur hans og reiði yfir öllum þeim, sem yfirgefa hann."
23 Vér föstuðum því og báðum Guð um þetta, og hann bænheyrði oss.
24 Síðan valdi ég tólf úr af prestahöfðingjunum og Serebja, Hasabja og með þeim tíu af bræðrum þeirra,
25 og vó þeim út silfrið og gullið og áhöldin _ gjöfina til húss Guðs vors, er konungur og ráðgjafar hans og höfðingjar hans og allir Ísraelsmenn, þeir er þar voru, höfðu gefið.
26 Og þannig vó ég í hendur þeirra sex hundruð og fimmtíu talentur í silfri, hundrað talentur í silfuráhöldum, hundrað talentur í gulli.
27 Auk þess tuttugu gullkönnur, þúsund daríka virði, og tvö ker af gullgljáum góðum eiri, dýrmæt sem gull.
28 Og ég sagði við þá: "Þér eruð helgaðir Drottni, og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið eru sjálfviljagjöf til Drottins, Guðs feðra yðar.
29 Gætið því þessa og varðveitið það, þar til er þér vegið það aftur út í augsýn prestahöfðingjanna og levítanna og ætthöfðingja Ísraels í Jerúsalem í herbergi musteris Drottins."
30 Síðan tóku prestarnir og levítarnir við silfrinu og gullinu og áhöldunum eftir vigt til þess að flytja það til Jerúsalem, til musteris Guðs vors.
31 Því næst lögðum vér upp frá fljótinu Ahava hinn tólfta dag hins fyrsta mánaðar og héldum til Jerúsalem, og hönd Guðs vors hvíldi yfir oss, svo að hann frelsaði oss undan valdi óvina og stigamanna.
32 Og vér komum til Jerúsalem og dvöldumst þar í þrjá daga.
33 En á fjórða degi var silfrið og gullið og áhöldin vegin út í musteri Guðs vors í hendur Meremóts prests Úríasonar, _ og með honum var Eleasar Pínehasson, og með þeim voru levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson _
34 allt saman með tölu og vigt. Og öll vigtin var þá skrifuð upp.
35 Þeir er heim komu úr herleiðingunni, þeir hernumdu, er aftur sneru, færðu Ísraels Guði brennifórnir: tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta, sjötíu og sjö lömb, tólf hafra í syndafórn _ allt sem brennifórn Drottni til handa.
36 Og þeir fengu jörlum konungs og landstjórunum í héraðinu hinumegin Fljóts konungsboðin, og þeir aðstoðuðu lýðinn og musteri Guðs.
8 Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.
2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla.
3 En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.
4 Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.
5 Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar.
6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði.
7 Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir.
8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg.
9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill.
10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: "Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli."
11 En því flykktust menn um hann, að hann hafði lengi heillað þá með töfrum.
12 Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur.
13 Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gjörðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gjörast, var hann frá sér numinn.
14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.
15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,
16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.
17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.
18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði:
19 "Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda."
20 En Pétur svaraði: "Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.
21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.
22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns,
23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis."
24 Símon sagði: "Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt."
25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.
27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir
28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.
29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."
30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"
31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"
35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.
36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"
38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.
39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.
40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
by Icelandic Bible Society