M’Cheyne Bible Reading Plan
16 Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar.
2 Og Saraí sagði við Abram: "Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis." Og Abram hlýddi orðum Saraí.
3 Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu.
4 Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína.
5 Þá sagði Saraí við Abram: "Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!"
6 En Abram sagði við Saraí: "Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir." Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni.
7 Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr.
8 Og hann mælti: "Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?" Hún svaraði: "Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni."
9 Og engill Drottins sagði við hana: "Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald."
10 Engill Drottins sagði við hana: "Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir."
11 Engill Drottins sagði við hana: "Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína.
12 Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum."
13 Og hún nefndi Drottin, sem við hana talaði, "Þú ert Guð, sem sér." Því að hún sagði: "Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?"
14 Þess vegna heitir brunnurinn Beer-lahaj-róí, en hann er á milli Kades og Bered.
15 Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael.
16 En Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.
15 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu:
2 "Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar."
3 Hann svaraði þeim: "Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar?
4 Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
5 En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,`
6 hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar.
7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir:
8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
9 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar."
10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið og skiljið.
11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni."
12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: "Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?"
13 Hann svaraði: "Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða.
14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju."
15 Þá sagði Pétur við hann: "Skýrðu fyrir oss líkinguna."
16 Hann svaraði: "Eruð þér líka skilningslausir ennþá?
17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni?
18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn.
19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.
20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann."
21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.
22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."
23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."
24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."
25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"
26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."
28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."
33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"
34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.
38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.
39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
5 En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum.
2 Sumir sögðu: "Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda."
3 Og aðrir sögðu: "Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu!"
4 Og enn aðrir sögðu: "Vér höfum tekið fé að láni upp á akra vora og víngarða í konungsskattinn.
5 Og þótt hold vort sé eins og hold bræðra vorra, börn vor eins og börn þeirra, þá verðum vér nú að gjöra sonu vora og dætur að ánauðugum þrælum, og sumar af dætrum vorum eru þegar orðnar ánauðugar, og vér getum ekkert við því gjört, þar eð akrar vorir og víngarðar eru á annarra valdi."
6 Þá varð ég mjög reiður, er ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli.
7 Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: "Þér beitið okri hver við annan!" Og ég stefndi mikið þing í móti þeim
8 og sagði við þá: "Vér höfum keypt lausa bræður vora, Gyðingana, sem seldir voru heiðingjunum, svo oft sem oss var unnt, en þér ætlið jafnvel að selja bræður yðar, svo að þeir verði seldir oss." Þá þögðu þeir og gátu engu svarað.
9 Og ég sagði: "Það er ekki fallegt, sem þér eruð að gjöra. Ættuð þér ekki heldur að ganga í ótta Guðs vors vegna smánaryrða heiðingjanna, óvina vorra?
10 Bæði ég og bræður mínir og sveinar mínir höfum líka lánað þeim silfur og korn. Vér skulum því láta þessa skuldakröfu niður falla.
11 Gjörið það fyrir mig að skila þeim aftur þegar í dag ökrum þeirra og víngörðum þeirra og olífugörðum þeirra og húsum þeirra, og látið niður falla skuldakröfuna um silfrið og kornið, um vínberjalöginn og olíuna, er þér hafið lánað þeim."
12 Þá sögðu þeir: "Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim. Vér viljum gjöra sem þú segir." Þá kallaði ég á prestana og lét þá vinna eið að því, að þeir skyldu fara eftir þessu.
13 Ég hristi og skikkjubarm minn og sagði: "Þannig hristi Guð sérhvern þann, er eigi heldur þetta loforð, burt úr húsi hans og frá eign hans, og þannig verði hann gjörhristur og tæmdur." Og allur þingheimur sagði: "Svo skal vera!" Og þeir vegsömuðu Drottin. Og lýðurinn breytti samkvæmt þessu.
14 Frá þeim degi, er hann setti mig til að vera landstjóri þeirra, í Júda _ frá tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs til þrítugasta og annars ríkisárs hans, tólf ár _ naut ég heldur ekki, né bræður mínir, landstjóra-borðeyrisins.
15 En hinir fyrri landstjórar, þeir er á undan mér voru, höfðu kúgað lýðinn og tekið af þeim fjörutíu sikla silfurs á dag fyrir brauði og víni. Auk þess höfðu sveinar þeirra drottnað yfir lýðnum. En ekki breytti ég þannig, því að ég óttaðist Guð.
16 Ég vann og að byggingu þessa múrs, og höfðum vér þó ekki keypt neinn akur, og allir sveinar mínir voru þar saman safnaðir að byggingunni.
17 En Gyðingar og yfirmennirnir, hundrað og fimmtíu að tölu, svo og þeir er komu til mín frá þjóðunum, er bjuggu umhverfis oss, átu við mitt borð.
18 Og það sem matreitt var á hverjum degi _ eitt naut, sex úrvals-kindur og fuglar _, það var matreitt á minn kostnað, og tíunda hvern dag nægtir af alls konar víni. En þrátt fyrir þetta krafðist ég ekki landstjóra-borðeyris, því að lýður þessi var í mikilli ánauð.
19 Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð.
15 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse."
2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.
3 Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.
4 Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra.
5 Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."
6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál.
7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú.
8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss.
9 Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.
10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?
11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir."
12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.
13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu, sagði Jakob: "Bræður, hlýðið á mig.
14 Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans.
15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er:
16 Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur,
17 svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta
18 kunnugt frá eilífð.
19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs,
20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði.
21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag."
22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna.
23 Þeir rituðu með þeim: "Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.
24 Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið.
25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli,
26 mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists.
27 Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama.
28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er,
29 að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir."
30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og skiluðu bréfinu.
31 En er menn lásu það, urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun.
32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá.
33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð, kvöddu þeir bræðurna og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra, sem höfðu sent þá.
35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins.
36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: "Förum nú aftur og vitjum bræðranna í hverri borg, þar sem vér höfum boðað orð Drottins, og sjáum, hvað þeim líður."
37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes, er kallaður var Markús.
38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.
39 Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur.
40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað, og fólu bræðurnir hann náð Drottins.
41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.
by Icelandic Bible Society