Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 8:4-11

Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama

og sögðu við hann: "Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum."

En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: "Gef oss konung til þess að dæma oss!" Og Samúel bað til Drottins.

Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.

Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig.

Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."

10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins

11 og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans,

Fyrri Samúelsbók 8:12-15

12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi.

13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka.

14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum,

15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum.

Fyrri Samúelsbók 8:16-20

16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka.

17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans.

18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."

19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: "Nei, konungur skal yfir oss vera,

20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora."

Fyrri Samúelsbók 11:14-15

14 Samúel sagði við lýðinn: "Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn."

15 Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.

Sálmarnir 138

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

Síðara bréf Páls til Kori 4:13-5:1

13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: "Ég trúði, þess vegna talaði ég." Vér trúum líka og þess vegna tölum vér.

14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður.

15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.

16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.

17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.

18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.

Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.

Markúsarguðspjall 3:20-35

20 Þegar hann kemur heim, safnast þar aftur mannfjöldi, svo þeir gátu ekki einu sinni matast.

21 Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum, enda sögðu þeir, að hann væri frá sér.

22 Og fræðimennirnir, er komnir voru ofan frá Jerúsalem, sögðu: "Beelsebúl er í honum. Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

23 En Jesús kallaði þá til sín og mælti við þá í líkingum: "Hvernig getur Satan rekið Satan út?

24 Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki eigi staðist,

25 og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt, fær það heimili eigi staðist.

26 Sé nú Satan risinn gegn sjálfum sér og orðinn sér sundurþykkur, fær hann ekki staðist, þá er úti um hann.

27 Enginn getur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.

28 Sannlega segi ég yður: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þeir kunna að lastmæla,

29 en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd."

30 En þeir höfðu sagt: "Óhreinn andi er í honum."

31 Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma.

32 Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: "Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér."

33 Hann svarar þeim: "Hver er móðir mín og bræður?"

34 Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: "Hér er móðir mín og bræður mínir!

35 Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society