Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
22 Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.
23 Og hann sagði við þá: "Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar.
24 Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út.
25 Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?" En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá.
26 En sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum.
27 Guðsmaður einn kom til Elí og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ég opinberaði mig ættmönnum föður þíns, þá er þeir heyrðu til húsi Faraós í Egyptalandi,
28 og ég valdi mér þá fyrir presta úr öllum ættkvíslum Ísraels, til þess að þeir gengju upp að altari mínu til að færa reykelsisfórn og bæru hökul frammi fyrir mér, og ég hefi gefið húsi föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna.
29 Hvers vegna fótum troðið þér sláturfórnir mínar og matfórnir, sem ég hefi fyrirskipað í bústað mínum? Og þú metur sonu þína meira en mig, er þér feitið yður á hinu besta af öllum fórnum Ísraels, lýðs míns!
30 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi sagt: ,Þitt hús og hús föður þíns skal ganga fyrir augliti mínu eilíflega.` En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Því að ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða.
31 Sjá, þeir tímar munu koma, að ég sundurbrýt arm þinn og arm ættar þinnar, svo að enginn verður gamall í húsi þínu.
32 Og þú munt sjá ofsjónum yfir þeirri farsæld, sem Ísrael mun hlotnast, og aldrei framar skal nokkur verða gamall í húsi þínu.
33 En einum af þínum vil ég eigi útrýma frá altari mínu. En ég mun láta augu þín daprast og sálu þína örmagnast, og öll viðkoma húss þíns skal falla fyrir sverði manna.
34 Og þetta skal vera þér merkið, sem koma mun fram á báðum sonum þínum, Hofní og Pínehas: Á sama degi munu þeir báðir deyja.
35 En ég mun skipa mér til handa trúan prest, og hann mun gjöra að mínum vilja og mínu skapi. Honum mun ég reisa stöðugt hús, og hann skal ganga fyrir augliti míns smurða alla daga.
36 Þá mun það verða, að hver sá, sem eftir er í húsi þínu, mun koma til að lúta honum til þess að fá smáskilding eða brauðhleif, og segja: ,Kom þú mér niður við eitthvert prestsembættið, svo að ég fái brauðbita að eta."`
5 Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.
2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.
3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.
4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]
5 Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.
6 Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"
7 Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."
8 Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"
9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,
10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."
11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`
12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"
13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.
14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."
15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.
16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.
17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."
18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.
by Icelandic Bible Society