Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
11 Síðan fór Elkana heim til sín í Rama, en sveinninn gegndi þjónustu Drottins hjá Elí presti.
12 Synir Elí voru hrakmenni. Þeir skeyttu ekki um Drottin,
13 né hvað prestinum bar með réttu af hálfu lýðsins. Hvenær sem einhver færði sláturfórn, þá kom sveinn prestsins, meðan verið var að sjóða kjötið, með þrítenntan fork í hendinni
14 og rak hann ofan í ketilinn, eða pottinn eða suðupönnuna eða grýtuna, og allt sem upp kom á forkinum, það tók presturinn handa sér. Svo fóru þeir með alla Ísraelsmenn, sem komu þangað til Síló.
15 Meira að segja, áður en fitan var brennd, kom sveinn prestsins og sagði við þann, sem fórnaði: "Gef mér kjöt til þess að steikja handa prestinum. Hann vill ekki taka við soðnu kjöti af þér, heldur hráu."
16 Segði maðurinn þá við hann: "Fyrst verður þó að brenna fituna; tak síðan slíkt er þú girnist!" þá svaraði hann: "Nei, heldur skalt þú gefa það nú þegar, ella mun ég taka það með valdi."
17 Synd hinna ungu manna var mjög mikil frammi fyrir Drottni, því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins.
19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"
20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"
21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?
22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,
23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?
24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.
25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,
26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.
27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.
28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"
29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."
by Icelandic Bible Society