Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
17 Þegar Filistar heyrðu að Davíð væri smurður til konungs yfir Ísrael, lögðu þeir af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann ofan í fjallvígið.
18 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.
19 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði Davíð: "Far þú, því að ég mun vissulega gefa Filista í hendur þér."
20 Þá fór Davíð til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim og sagði: "Drottinn hefir skolað burt óvinum mínum fyrir mér, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.
21 En þeir létu þar eftir skurðgoð sín, og Davíð og menn hans tóku þau.
22 Filistar komu aftur og dreifðu sér um Refaímdal.
23 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin, og hann svaraði: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.
24 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að ljósta her Filista."
25 Og Davíð gjörði eins og Drottinn bauð honum og vann sigur á Filistum frá Geba alla leið til Geser.
7 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.
2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.
3 Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.
4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."
5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.
6 Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.
7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.
8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."
9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.
by Icelandic Bible Society