Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
37 Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans.
38 Og Faraó sagði við þjóna sína: "Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?"
39 Og Faraó sagði við Jósef: "Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú.
40 Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera."
41 Faraó sagði við Jósef: "Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland."
42 Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum.
43 Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: "Lútið honum!" _ og hann setti hann yfir allt Egyptaland.
44 Faraó sagði við Jósef: "Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi."
45 Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland.
46 Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland.
47 Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin.
48 Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru.
49 Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.
50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón.
51 Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, "því að Guð hefir," sagði hann, "látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns."
52 En hinn nefndi hann Efraím, "því að Guð hefir," sagði hann, "gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar."
53 Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda,
54 og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð.
55 En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: "Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður."
56 Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi.
57 Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.
19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn.
20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.
21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu,
22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: "Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar."
23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á.
24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu.
25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu
26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað.
27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.
28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.
by Icelandic Bible Society