Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
39 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt.
2 En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns.
3 Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur,
4 þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti.
5 Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan.
6 Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum.
7 Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: "Leggstu með mér!"
8 En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: "Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur.
9 Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?"
10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.
11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni,
12 að hún greip í skikkju hans og mælti: "Leggstu með mér!" En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út.
13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út,
14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: "Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum.
15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út."
16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim.
17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: "Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig.
18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út."
19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: "Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig," þá varð hann ákaflega reiður.
20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni.
21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar.
22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi.
23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.
14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.
15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."
16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.
17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."
18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.
19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"
20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"
21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?
22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,
23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?
24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.
25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,
26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.
27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.
28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"
29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."
by Icelandic Bible Society