Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
22 Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu.
23 Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.
24 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp.
25 Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann.
26 Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig."
27 Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob."
28 Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."
29 Og Jakob spurði hann og mælti: "Seg mér heiti þitt." En hann svaraði: "Hvers vegna spyr þú mig að heiti?" Og hann blessaði hann þar.
30 Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, "því að ég hefi," kvað hann, "séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi."
31 Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
9 Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda,
2 að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu.
3 Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn,
4 Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.
5 Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.
13 Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum.
14 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru.
15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir."
16 Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta."
17 Þeir svara honum: "Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska."
18 Hann segir: "Færið mér það hingað."
19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu.
20 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar.
21 En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna.
by Icelandic Bible Society