Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Fimmta bók Móse 31:1-13

31 Móse fór og flutti öllum Ísrael þessi orð

og sagði við þá: "Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: ,Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan.`

Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt.

Og Drottinn mun fara með þær eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra, sem hann eyddi.

Og Drottinn mun gefa þær yður á vald, og þér skuluð fara með þær nákvæmlega eftir skipun þeirri, er ég hefi fyrir yður lagt.

Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra.

Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels.

10 Og Móse lagði svo fyrir þá: "Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni,

11 þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði.

12 Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

13 Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

Jóhannesarguðspjall 16:16-24

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society