Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
5 Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga,
6 þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.
7 Og Drottinn sagði: "Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau."
8 En Nói fann náð í augum Drottins.
9 Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.
10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet.
11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum.
12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.
13 Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.
14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan.
15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir.
16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.
17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.
18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér.
19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera:
20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi.
21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."
22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
27 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.
2 Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.
3 Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.
4 Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.
5 Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.
6 Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.
7 Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.
8 Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.
9 Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við
10 og sagði við þá: "Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru."
11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.
12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.
by Icelandic Bible Society