Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 77:1-2

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Sálmarnir 77:11-20

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

Fyrri bók konunganna 22:29-40

29 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað.

30 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: "Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum." Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi og gekk í orustuna.

31 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu, sem voru þrjátíu og tveir, á þessa leið: "Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan."

32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: "Þetta er vissulega Ísraelskonungurinn," og sneru í móti honum til þess að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt.

33 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann.

34 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusvein sinn: "Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár."

35 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og konungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og blóðið úr sárinu rann ofan í vagninn, og dó hann um kvöldið.

36 En um sólsetur kvað svolátandi óp við um allan herinn: "Hver fari heim til sinnar borgar og síns lands,

37 því að konungur er dauður." Og þeir komu til Samaríu og jörðuðu konung í Samaríu.

38 En er vagninn var þveginn við Samaríutjörn, þá sleiktu hundar blóðið og portkonur lauguðu sig þar eftir orði Drottins, því er hann hafði talað.

39 Það sem meira er að segja um Akab og allt, sem hann gjörði, og um fílabeinshúsið, sem hann reisti, og allar borgirnar, sem hann byggði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

40 Og Akab lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.

Fyrri bók konunganna 22:51-53

51 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.

52 Ahasía sonur Akabs varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á seytjánda ríkisári Jósafats, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael tvö ár.

53 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og móður og í fótspor Jeróbóams Nebatssonar, er komið hafði Ísrael til að syndga.

Síðara bréf Páls til Kori 13:5-10

Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.

En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.

Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.

Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.

Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.

10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society