Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
14 Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi.
15 En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. Jehú mælti: "Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel."
16 Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram.
17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: "Ég sé flokk manna." Þá mælti Jóram: "Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði."
18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér." Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur."
19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."
20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður."
21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta.
22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: "Fer þú með friði, Jehú?" Hann svaraði: "Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?"
23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: "Svik, Ahasía!"
24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum.
25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: "Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum:
26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins."
11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.
12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.
13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.
14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum
15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.
16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.
17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.
18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.
19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.
20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.
21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.
22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.
by Icelandic Bible Society