Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
24 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu.
2 Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti:
3 "Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal,
4 heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum."
5 Þjónninn svaraði honum: "En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?"
6 Og Abraham sagði við hann: "Varastu að fara með son minn þangað!
7 Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.
8 Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur."
9 Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu.
10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors.
11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn.
12 Og hann mælti: "Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham.
13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn.
14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum."
15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.
16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni.
17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: "Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni."
18 Og hún svaraði: "Drekk, herra minn!" Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka.
19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: "Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína."
20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.
21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.
17 En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði.
18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig.
19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri,
20 kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu.
21 Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?
22 Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma?
23 Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?
24 Svo er sem ritað er: "Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna."
25 Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu.
26 Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri?
27 Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið?
28 Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu.
29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.
by Icelandic Bible Society