Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
9 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar.
10 Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.
11 Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum.
12 Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.
13 Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns.
14 Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn.
15 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn.
16 Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
17 Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna.
18 Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"
27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."
28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."
by Icelandic Bible Society