Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 121

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Esekíel 1:1-25

Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.

Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur,

þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann.

Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull.

Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim.

Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi.

Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir.

Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur.

Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram.

10 Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert.

11 Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.

12 Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.

13 Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur.

14 Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri.

15 Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum.

16 Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.

17 Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu.

18 Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum.

19 Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig.

20 Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum.

21 Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum.

22 Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra.

23 Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.

24 Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.

25 En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.

Postulasagan 9:19-31

19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus

20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.

21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"

22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.

23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.

24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.

25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.

26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.

27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.

28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.

29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.

30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.

31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society