Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 80

80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.

Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!

Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?

Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.

Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,

10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.

11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.

12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.

13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?

14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa

16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.

17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.

18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,

19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Jesaja 5:1-7

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð.

Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.

Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns!

Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?

En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður.

Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.

Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.

Bréf Páls til Galatamanna 5:16-26

16 En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.

17 Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.

18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli.

19 Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi,

20 skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur,

21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.

22 En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska,

23 hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.

24 En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!

26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society