Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 135

135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,

er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.

Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.

Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.

Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,

sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.

10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:

11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,

12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,

14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.

16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.

18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!

20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!

21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.

Jesaja 26:1-15

26 Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki.

Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir

og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.

Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg.

Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið.

Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.

Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú.

Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.

Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.

10 Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.

11 Drottinn, hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum.

12 Drottinn, veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka.

13 Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú höfðu fengið yfirráð yfir oss, en nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn.

14 Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.

15 Þú hefir gjört þjóðina stóra, Drottinn, þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins.

Markúsarguðspjall 12:18-27

18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`

20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.

21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,

22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.

23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."

24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?

25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.

26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society