Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
2 Þá sendi Drottinn stórfisk til þess að svelgja Jónas. Og Jónas var í kviði fisksins þrjá daga og þrjár nætur.
2 Og Jónas bað til Drottins Guðs síns í kviði fisksins
3 og sagði: Ég kallaði til Drottins í neyð minni, og hann svaraði mér. Frá skauti Heljar hrópaði ég, og þú heyrðir raust mína.
4 Þú varpaðir mér í djúpið, út í mitt hafið, svo að straumurinn umkringdi mig. Allir boðar þínir og bylgjur gengu yfir mig.
5 Ég hugsaði: Ég er burt rekinn frá augum þínum. Mun ég nokkurn tíma framar líta þitt heilaga musteri?
6 Vötnin luktu um mig og ætluðu að sálga mér, hyldýpið umkringdi mig, höfði mínu var faldað með marhálmi.
7 Ég steig niður að grundvöllum fjallanna, slagbrandar jarðarinnar voru lokaðir á eftir mér að eilífu. Þá færðir þú líf mitt upp úr gröfinni, Drottinn, Guð minn!
8 Þegar sál mín örmagnaðist í mér, þá minntist ég Drottins, og bæn mín kom til þín, í þitt heilaga musteri.
9 Þeir sem dýrka fánýt falsgoð, þeir hafna hjálpræði sínu.
10 En ég vil færa þér fórnir með lofgjörðarsöng. Ég vil greiða það er ég hefi heitið. Hjálpin kemur frá Drottni.
11 En Drottinn bauð fiskinum að spúa Jónasi upp á þurrt land.
38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn."
39 Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.
40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.
41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.
42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.
by Icelandic Bible Society