Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 135

135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,

er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.

Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.

Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.

Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,

sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.

10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:

11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,

12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,

14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.

16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.

18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!

20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!

21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.

Esekíel 14:1-11

14 En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér.

Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig?

Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð,

til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín.

Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar.

Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa.

Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael.

10 Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn,

11 til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð _ segir Drottinn Guð."

Postulasagan 3:1-10

Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.

Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.

Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.

Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: "Lít þú á okkur."

Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.

Pétur sagði: "Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!"

Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,

hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.

Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð.

10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society