Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri bók konunganna 18:20-21

20 Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.

21 Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: "Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum." En lýðurinn svaraði honum engu orði.

Fyrri bók konunganna 18:22-29

22 Þá mælti Elía til lýðsins: "Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu.

23 Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að.

24 Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð." Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: "Þetta er vel mælt."

25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: "Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að."

26 Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: "Baal, svara þú oss!" En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört.

27 En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: "Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna."

28 En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi.

29 En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.

Fyrri bók konunganna 18:30-39

30 Þá sagði Elía við allan lýðinn: "Gangið hingað til mín!" Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið.

31 Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs _ þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!` _

32 og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis.

33 Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn.

34 Því næst mælti hann: "Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn." Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: "Gjörið það aftur." Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: "Gjörið það í þriðja sinn." Og þeir gjörðu það í þriðja sinn.

35 Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni.

36 En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: "Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði.

37 Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra."

38 Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.

39 Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: "Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!"

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Bréf Páls til Galatamanna 1:1-12

Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _

og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,

sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.

Honum sé dýrð um aldir alda, amen.

Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,

sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.

En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.

Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.

10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.

11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.

12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.

Lúkasarguðspjall 7:1-10

Þá er hann hafði lokið máli sínu í áheyrn lýðsins, fór hann til Kapernaum.

Hundraðshöfðingi nokkur hafði þjón, sem hann mat mikils. Þjónninn var sjúkur og dauðvona.

Þegar hundraðshöfðinginn heyrði um Jesú, sendi hann til hans öldunga Gyðinga og bað hann koma og bjarga lífi þjóns síns.

Þeir komu til Jesú, báðu hann ákaft og sögðu: "Verður er hann þess, að þú veitir honum þetta,

því að hann elskar þjóð vora, og hann hefur reist samkunduna handa oss."

Jesús fór með þeim. Þegar hann átti skammt til hússins, sendi hundraðshöfðinginn vini sína til hans og lét segja við hann: "Ómaka þig ekki, herra, því að ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt.

Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín. En mæl þú eitt orð, og mun sveinn minn heill verða.

Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það."

Þegar Jesús heyrði þetta, furðaði hann sig á honum, sneri sér að mannfjöldanum, sem fylgdi honum, og mælti: "Ég segi yður, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið þvílíka trú."

10 Sendimenn sneru þá aftur heim og fundu þjóninn heilan heilsu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society