Revised Common Lectionary (Complementary)
10 Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta,
11 eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.
12 Já, með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa.
13 Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa. Þetta mun verða Drottni til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast
52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.
53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.
54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?
56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.
57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!
58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.
39 Þá sagði hann þeim og líkingu: "Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju?
40 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.
41 Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?
42 Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,` en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
43 Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt.
44 En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni.
45 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.
46 En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi?
47 Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim.
48 Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt.
49 Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið."
by Icelandic Bible Society