Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 10

10 Eftir þetta bar svo til, að konungur Ammóníta dó, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.

Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, eins og faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð þjóna sína til að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta,

þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, herra sinn: "Hyggur þú, að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Mun Davíð ekki hafa sent þjóna sína á þinn fund til þess að njósna í borginni og kanna hana og kollvarpa henni síðan?"

Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og raka af þeim hálft skeggið og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.

Davíð voru sögð þessi tíðindi, og sendi hann þá menn á móti þeim, _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _, og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó, uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."

En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, sendu þeir menn og tóku á mála Sýrlendinga frá Bet Rehób og Sýrlendinga frá Sóba, tuttugu þúsundir fótgönguliðs, svo og konunginn í Maaka með þúsund manns, og tólf þúsund manns frá Tób.

En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan herinn, það er að segja kappana.

Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu fyrir utan borgarhliðið, en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób, svo og mennirnir frá Tób og Maaka, stóðu úti á víðavangi einir sér.

En er Jóab sá, að honum var búinn bardagi bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.

10 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylkti hann því á móti Ammónítum.

11 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, þá mun ég koma þér til hjálpar.

12 Vertu hughraustur, og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það, sem honum þóknast."

13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.

14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem.

15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman.

16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim.

17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.

18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar.

19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.

Síðara bréf Páls til Kori 3

Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?

Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.

Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.

En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.

Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,

sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.

En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,

hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?

Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.

10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.

11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.

12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung

13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.

14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.

15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.

16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."

17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.

18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.

Esekíel 17

17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, ber upp gátu og seg Ísraelsmönnum líking

og mæl: Svo segir Drottinn Guð: Örninn sá hinn mikli með stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, með þykka og marglita fjaðurhaminn, fór upp á Líbanon og tók toppinn af sedrustrénu.

Hann braut af efstu brumkvistina og flutti þá til verslunarlandsins. Í kaupmanna borg setti hann þá.

Síðan tók hann af gróðri landsins og setti það í sáðland, hann setti það þar sem nóg vatn var, eins og pílvið.

Og það óx og varð að vínvið, sem breiddist út lágvaxinn, svo að greinar hans sveigðust aftur að honum og rætur hans héldust undir honum. Og er það var orðið að vínviði, fékk það kvisti og skaut greinum.

En það var annar mikill örn með stóra vængi og mikinn fjaðurham, og sjá, vínviður þessi teygði rætur sínar að honum og rétti greinar sínar í móti honum, til þess að hann skyldi vökva hann, en ekki reitinn, sem hann var gróðursettur í,

og þó var hann gróðursettur í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, til þess að skjóta greinum og bera ávöxtu og verða dýrlegur vínviður.

Seg þú: Svo segir Drottinn Guð: Mun það vel gefast? Mun hinn örninn ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtu hans, og öll hans nýsprottnu blöð visna? Og eigi mun þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa til þess að kippa honum upp með rótum.

10 Nú er hann gróðursettur, en mun það vel gefast? Mun hann ekki skrælna, þegar austanvindurinn fer að leika um hann, mun hann ekki skrælna í reitnum, þar sem hann óx?"

11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

12 "Seg við hina þverúðugu kynslóð: Skiljið þér eigi, hvað þetta á að þýða? Seg þú: Sjá, konungurinn í Babýlon kom til Jerúsalem og tók konung hennar og höfðingja og fór með þá heim til sín, til Babýlon.

13 Og hann tók einn af konungsættinni og gjörði sáttmála við hann og tók eið af honum, en leiðtoga landsins hafði hann flutt á burt,

14 til þess að konungsvaldið skyldi vera lítið og eigi geta hafið sig aftur, til þess að hann skyldi halda sáttmála þann, er hann hafði gengist undir, og sáttmálinn standa.

15 En hann hóf uppreisn gegn honum og gjörði sendimenn til Egyptalands eftir hestum og miklu liði. Mun það vel gefast? Mun sá, er slíkt gjörir, klakklaust af komast? Mun sá, er rýfur sáttmála, klakklaust af komast?

16 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, í aðseturstað þess konungs, er hóf hann til konungdóms, hvers sáttmála hann hefir rofið og að engu haft þann eið, er hann vann honum, hjá honum skal hann deyja í Babýlon.

17 En Faraó mun ekki hjálpa honum í stríðinu með miklum herafla og fjölmennu liði, þá er jarðhryggjum verður hleypt upp og víggarðar hlaðnir, til þess að bana mörgum mönnum.

18 Því að hann hefir eiðinn að engu haft með því að rjúfa sáttmálann. Já, hann seldi til þess hönd sína og gjörði þó allt þetta. Hann skal ekki klakklaust af komast.

19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Svo sannarlega sem ég lifi, eiðinn, sem hann hefir unnið mér, en þó að engu haft, og sáttmálann, sem hann hefir gjört við mig, en þó rofið, mun ég láta honum í koll koma.

20 Og ég mun kasta neti mínu yfir hann, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon og ganga þar í dóm við hann um tryggðrofin, er hann hefir í frammi við mig haft.

21 Og allt úrvalalið hans meðal allra herflokka hans mun fyrir sverði falla, og þeir, sem eftir verða, munu tvístrast í allar áttir og þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi talað það.

22 Svo segir Drottinn Guð: Ég mun taka nokkuð af topplimi hins hávaxna sedrustrés og planta því. Af efstu brumkvistum þess mun ég brjóta einn grannan og gróðursetja hann á háu og gnæfandi fjalli.

23 Á hæðarhnjúki Ísraels mun ég gróðursetja hann, og hann mun fá greinar og bera ávöxtu og verða dýrlegur sedrusviður, og alls konar vængjaðir fuglar munu undir honum búa, í forsælunni af greinum hans munu þeir búa.

24 Og öll tré merkurinnar skulu sjá, að ég, Drottinn, niðurlægi hið háa tré og upphef hið lága, læt hið græna tré þorna og hið þurra blómgast. Ég, Drottinn, hefi sagt það og gjört það."

Sálmarnir 60-61

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.

Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.

Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]

Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.

Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.

Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society