Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 31

31 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli.

Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls.

Var nú gjör hörð atlaga að Sál, og höfðu nokkrir bogmannanna komið auga á hann. Varð hann þá mjög hræddur við bogmennina.

Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það.

Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó með honum.

Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og skjaldsveinn hans, allir þennan sama dag.

Er Ísraelsmenn, þeir er bjuggu hinumegin við sléttlendið og þeir er bjuggu hinumegin Jórdanar, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.

Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli.

Hjuggu þeir af honum höfuðið og flettu hann herklæðum og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin.

10 Og þeir lögðu vopn hans í hof Astörtu, en lík hans hengdu þeir upp á borgarmúrinn í Bet San.

11 En er íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu, hvernig Filistar höfðu farið með Sál,

12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, gengu alla nóttina og tóku lík Sáls og lík sona hans ofan af borgarmúrnum í Bet San. Síðan héldu þeir heim til Jabes og brenndu þar líkin.

Fyrra bréf Páls til Korin 11

11 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.

Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.

En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.

Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt.

En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig.

Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu.

Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins.

Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum,

og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.

10 Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér.

11 Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin,

12 því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði.

13 Dæmið sjálfir: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð?

14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd,

15 en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað.

16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá viti sá, að annað er ekki venja vor eða safnaða Guðs.

17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.

18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.

19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.

20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,

21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.

22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.

23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,

24 gjörði þakkir, braut það og sagði: "Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu."

25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu."

26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.

27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.

28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.

29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.

30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.

31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.

32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.

33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.

34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.

Esekíel 9

Þessu næst kallaði hann hárri röddu í eyru mín: "Refsingar borgarinnar nálgast!"

Þá komu sex menn frá efra hliðinu, sem snýr í norður, og hafði hver þeirra eyðingarverkfæri í hendi sér, og meðal þeirra var einn maður, sem var líni klæddur og hafði skriffæri við síðu sér. Þeir komu og námu staðar hjá eiraltarinu.

Dýrð Ísraels Guðs hafði hafið sig frá kerúbunum, þar sem hún hafði verið, yfir að þröskuldi hússins. Og hann kallaði á línklædda manninn, sem hafði skriffærin við síðu sér.

Og Drottinn sagði við hann: "Gakk þú mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni."

En til hinna mælti hann að mér áheyrandi: "Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, lítið engan vægðarauga og sýnið enga meðaumkun.

Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á. Og takið fyrst til hjá helgidómi mínum!" Og þeir tóku fyrst til á öldungum þeim, sem voru fyrir framan musterið.

Og hann sagði við þá: "Horfið ekki í að saurga musterið og fyllið strætin vegnum mönnum. Gangið nú út!" Þeir gengu þá út og hjuggu niður mannfólkið í borginni.

Meðan þeir brytjuðu niður, féll ég fram á ásjónu mína, kallaði og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels, þar sem þú eys út reiði þinni yfir Jerúsalem?"

Þá sagði hann við mig: "Misgjörð Ísraelsmanna og Júdamanna er afskaplega mikil, og landið er fullt af blóðugu ranglæti og borgin er full af ofbeldisverkum, því að þeir segja: ,Drottinn hefir yfirgefið landið` og ,Drottinn sér það ekki.`

10 Fyrir því skal ég heldur ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Ég læt athæfi þeirra þeim sjálfum í koll koma."

11 Þá kom línklæddi maðurinn, sem hafði skriffærin við síðu sér, aftur og sagði: "Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér."

Sálmarnir 48

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society