Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 101

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

Sálmarnir 109:1-30

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

Sálmarnir 119:121-144

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.

130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.

132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.

133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.

134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.

135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.

136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Jesaja 63:15-64:9

15 Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum! Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé!

16 Sannlega ert þú faðir vor, því að Abraham þekkir oss ekki og Ísrael kannast ekki við oss. Þú, Drottinn, ert faðir vor, "Frelsari vor frá alda öðli" er nafn þitt.

17 Hví lést þú oss, Drottinn, villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!

18 Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn.

19 Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.

64 Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu _ eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, _ til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu,

er þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir. Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu.

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona.

Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, _ yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir.

Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur.

Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum.

En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!

Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn.

Fyrra bréf Páls til Tímót 3

Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.

Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.

Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.

Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.

Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?

Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.

Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.

Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.

10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.

11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.

12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum.

13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.

14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,

15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.

16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.

Markúsarguðspjall 11:27-12:12

27 Þeir koma aftur til Jerúsalem, og þegar hann var á gangi í helgidóminum, koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir

28 og segja við hann: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér það vald, að þú gjörir þetta?"

29 Jesús sagði við þá: "Ég vil leggja eina spurningu fyrir yður. Svarið henni, og ég mun segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

30 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum? Svarið mér!"

31 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

32 Eða ættum vér að svara: Frá mönnum?" _ það þorðu þeir ekki fyrir lýðnum, því allir töldu, að Jóhannes hefði verið sannur spámaður.

33 Þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.

Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.

En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.

Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.

Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.

Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`

En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.

Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.

11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."

12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society