Book of Common Prayer
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.
54 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn.
2 Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.
3 Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4 Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5 Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6 Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn.
7 Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8 Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9 Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.
10 Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, _ segir miskunnari þinn, Drottinn.
11 Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum.
12 Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.
13 Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.
14 Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér.
15 Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.
16 Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.
17 Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér _ segir Drottinn.
21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?
22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.
23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.
24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;
25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.
26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,
27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.
28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.
29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.
30 En hvað segir ritningin? "Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar."
31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.
11 Þangað komu farísear og tóku að þrátta við hann, þeir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
12 Hann andvarpaði þungan innra með sér og mælti: "Hví heimtar þessi kynslóð tákn? Sannlega segi ég yður: Tákn verður alls ekki gefið þessari kynslóð."
13 Hann skildi síðan við þá, sté aftur í bátinn og fór yfir um.
14 Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum.
15 Jesús áminnti þá og sagði: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar."
16 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð.
17 Hann varð þess vís og segir við þá: "Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert?
18 Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki?
19 Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?" Þeir svara honum: "Tólf."
20 "Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?" Þeir svara: "Sjö."
21 Og hann sagði við þá: "Skiljið þér ekki enn?"
22 Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja, að hann snerti hann.
23 Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: "Sér þú nokkuð?"
24 Hann leit upp og mælti: "Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga."
25 Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt.
26 Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: "Inn í þorpið máttu ekki fara."
by Icelandic Bible Society