Book of Common Prayer
83 Ljóð. Asafs-sálmur.
2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.
2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.
5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!
9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.
11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
60 Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!
2 Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér.
3 Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.
4 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.
5 Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.
6 Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
7 Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér: Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.
8 Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna?
9 Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt _ vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.
10 Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.
11 Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja.
12 Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.
13 Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna.
14 Og synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael.
15 Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða.
16 Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.
17 Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.
14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.
15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.
16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,
17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.
18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.
19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."
20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.
21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.
22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.
23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.
24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,
25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,
26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.
17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.
19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`
20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."
21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."
22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."
24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.
25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."
28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."
29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,
30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.
31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."
by Icelandic Bible Society