Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Amos 8:1-12

Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Ég sá körfu með sumarávöxtum.

Þá sagði hann: "Hvað sér þú, Amos?" Ég svaraði: "Körfu með sumarávöxtum." Þá sagði Drottinn við mig: "Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann.

Og musterissöngmeyjarnar skulu kveina á þeim degi _ segir Drottinn Guð. _ Líkin eru mörg. Alls staðar fleygja menn þeim út í kyrrþey!"

Heyrið þetta, þér sem sundur merjið hina fátæku og ætlið að gjöra út af við alla aumingja í landinu, _

sem segið: "Hvenær mun tunglkomuhátíðin líða, svo að vér megum selja korn, og hvíldardagurinn, svo að vér megum opna kornhlöðurnar?" _ sem minnkið mælinn og hækkið verðið og falsið svikavogina,

og kaupið hina snauðu fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, _ sem segið: "Vér seljum þeim aðeins úrganginn úr korninu."

Drottinn hefir svarið við vegsemd Jakobs: Aldrei skal ég gleyma öllu því, er þeir hafa gjört.

Hlaut ekki jörðin að nötra af slíku og allir þeir, sem þar búa, að verða sorgbitnir, svo að hún hófst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkaði eins og fljótið á Egyptalandi?

Á þeim degi, _ segir Drottinn Guð _ vil ég láta sólina ganga til viðar um miðjan dag og senda myrkur yfir landið á ljósum degi.

10 Ég vil snúa hátíðum yðar í sorg og öllum ljóðum yðar í harmkvæði, klæða allar mjaðmir í sorgarbúning og gjöra öll höfuð sköllótt. Ég læt það verða eins og sorg eftir einkason og endalok þess sem beiskan dag.

11 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn Guð, _ að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins,

12 svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það.

Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Bréf Páls til Kólossumann 1:15-28

15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.

16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.

17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.

18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.

19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa

20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum,

22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega.

23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess.

24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan.

25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað,

26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.

27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.

28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.

Lúkasarguðspjall 10:38-42

38 Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim.

39 Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.

40 En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: "Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér."

41 En Drottinn svaraði henni: "Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu,

42 en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society