Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 139:1-6

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Sálmarnir 139:13-18

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

Fyrri Samúelsbók 1:19-27

19 Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar.

20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."

21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.

22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."

23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.

24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.

25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.

26 Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.

27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.

Bréf Páls til Rómverja 8:31-39

31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?

32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?

33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.

34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.

35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?

36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé.

37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.

38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,

39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society