Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.
16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg.
17 Þá sagði Drottinn: "Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra,
18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta?
19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið."
20 Og Drottinn mælti: "Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung.
21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það."
22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni.
23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: "Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu?
24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru?
25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?"
26 Og Drottinn mælti: "Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna."
27 Abraham svaraði og sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska.
28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?" Þá mælti hann: "Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm."
29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: "Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu." En hann svaraði: "Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört."
30 Og hann sagði: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu." Og hann svaraði: "Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu."
31 Og hann sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu." Og hann mælti: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu."
32 Og hann mælti: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu." Og hann sagði: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu."
33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
12 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta.
2 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: "Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi."
3 Hann svaraði þeim: "Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans?
4 Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta.
5 Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka?
6 En ég segi yður: Hér er meira en musterið.
7 Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,` munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn.
8 Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."
by Icelandic Bible Society