Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.
2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!
5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
20 Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.
21 Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans.
22 Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli,
23 tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla.
24 Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring,
25 svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons.
26 Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn.
27 Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta.
28 Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar.
5 En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.
2 Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.
3 Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.
4 En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.
5 Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.
6 Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.
7 Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.
8 En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.
9 Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,
10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.
11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.
by Icelandic Bible Society