Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 107:1-16

107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum

og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.

Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,

þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.

Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra

og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.

Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,

11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,

12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.

13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,

14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.

15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,

16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.

Fjórða bók Móse 20:1-13

20 Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu í eyðimörkina Sín í fyrsta mánuðinum, og lýðurinn settist um kyrrt í Kades. Þar dó Mirjam og var þar grafin.

Fólkið hafði ekki vatn. Söfnuðust þeir þá saman í gegn Móse og Aroni.

Og lýðurinn þráttaði við Móse og sagði: "Guð gæfi að vér hefðum dáið, þá er bræður vorir dóu fyrir augliti Drottins.

Hví leidduð þið söfnuð Drottins í eyðimörk þessa, að vér og fénaður vor dæjum þar?

Hví létuð þið oss í burt fara af Egyptalandi, til þess að leiða oss í þennan vonda stað, þar sem eigi verður sáð, engar fíkjur vaxa né vínviður né granatepli, og eigi er vatn til að drekka?"

Móse og Aron gengu þá burt frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Birtist þeim þá dýrð Drottins.

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tak stafinn og safna saman lýðnum, þú og Aron bróðir þinn, og mælið við klettinn í áheyrn þeirra, og mun hann vatn gefa. Og þú skalt leiða út vatn handa þeim af klettinum og gefa fólkinu og fénaði þeirra að drekka."

Þá sótti Móse stafinn inn í helgidóminn, eins og Drottinn hafði boðið honum.

10 Og Móse og Aron söfnuðu saman lýðnum við klettinn, og Móse sagði við þá: "Heyrið þér, þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?"

11 Síðan hóf Móse upp hönd sína og laust klettinn tveim sinnum með staf sínum. Spratt þá upp vatn mikið, svo að fólkið drakk og fénaður þeirra.

12 Þá sagði Drottinn við Móse og Aron: "Fyrir því að þið trúðuð mér eigi, svo að þið helguðuð mig í augum Ísraelsmanna, þá skuluð þið eigi leiða söfnuð þennan inn í landið, sem ég hefi gefið þeim."

13 Þetta eru Meríbavötn, þar sem Ísraelsmenn þráttuðu við Drottin og hann sýndi heilagleik sinn á þeim.

Fyrra bréf Páls til Korin 10:6-13

Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það.

Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: "Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika."

Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.

Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum.

10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum.

11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.

12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.

13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society