Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi:
11 "Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina.
12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."
13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."
14 En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"
15 Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."
16 Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt." Sál sagði við hann: "Tala þú!"
17 Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael?
18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.`
19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"
20 Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað.
21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."
22 Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.
23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."
24 Sál mælti við Samúel: "Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess.
25 Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni."
26 Samúel svaraði Sál: "Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael."
27 Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af.
28 Þá mælti Samúel til hans: "Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú.
29 Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri."
30 Sál mælti: "Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum."
31 Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni.
5 En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign
2 og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna.
3 En Pétur mælti: "Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns?
4 Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði."
5 Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu.
6 En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu.
7 Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið.
8 Þá spurði Pétur hana: "Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?" En hún svaraði: "Já, fyrir þetta verð."
9 Pétur mælti þá við hana: "Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út."
10 Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar.
11 Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.
by Icelandic Bible Society