Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sefanía 3:14-19

14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem!

15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.

16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: "Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!

17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng."

18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim.

19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.

Bréf Páls til Rómverja 13:11-14

11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.

12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.

13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.

14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society