Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Jósúabók 3

Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um.

En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar

og buðu lýðnum og sögðu: "Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni.

Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður."

Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar."

Og við prestana sagði Jósúa: "Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum." Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum.

Drottinn sagði við Jósúa: "Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse.

En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni."

Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: "Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!"

10 Og Jósúa mælti: "Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum:

11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan.

12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri.

13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur."

14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum.

15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann),

16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó.

17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.

Bréfið til Hebrea 11:23-29

23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins.

24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós,

25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna.

27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.

28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá.

29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society