Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
16 En nokkrir af Benjamíns- og Júdaniðjum komu til Davíðs í fjallvígið.
17 Gekk Davíð þá út til þeirra, tók til máls og sagði við þá: "Ef þér komið til mín með friði til þess að veita mér lið, þá vil ég fúslega gjöra bandalag við yður, en ef þér komið til að svíkja mig í hendur óvinum mínum, þótt ég hafi ekkert illt aðhafst, þá sjái Guð feðra vorra það og hegni."
18 Þá kom andi yfir Amasaí, höfðingja fyrir hinum þrjátíu, og mælti hann: "Þínir erum vér, Davíð, og með þér, þú Ísaísonur. Heill, heill sé þér, og heill liðsmönnum þínum, því að Guð þinn hjálpar þér." Tók þá Davíð við þeim og gjörði þá að foringjum fyrir sveit sinni.
19 Af Manasse gengu í lið með Davíð, þá er hann fór með Filistum til bardaga við Sál _ þó liðsinntu þeir þeim ekki, því að höfðingjar Filista réðu ráðum sínum, sendu hann burt og sögðu: "Hann kynni að ganga í lið með Sál, herra sínum, og gæti það orðið vor bani" _
20 þegar hann kom til Siklag, þá gengu í lið með honum af Manasse: Adna, Jósabad, Jedíael, Míkael, Jósabad, Elíhú og Silletaí, þúsundhöfðingjar Manasse.
21 Veittu þessir Davíð lið gegn ræningjaflokkum, því að allir voru þeir kappar miklir, og urðu þeir foringjar í hernum.
22 Því að dag frá degi komu menn til liðs við Davíð, uns herinn var mikill orðinn sem guðsher.
5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu."
6 Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.
7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur.
8 En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."
9 Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins."
10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði.
11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.
12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf.
13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið.
14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.
by Icelandic Bible Society