Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 81:1

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Sálmarnir 81:10-16

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

Jeremía 2:1-3

Orð Drottins kom til mín:

Far og kunngjör Jerúsalem þetta: Svo segir Drottinn: Ég man eftir kærleika æsku þinnar, elsku festartíma þíns, hversu þú fylgdir mér í eyðimörkinni, í ófrjóu landi.

Ísrael var helgaður Drottni, frumgróði uppskeru hans, allir þeir, sem vildu eta hann, urðu sekir, ógæfa kom yfir þá _ segir Drottinn.

Jeremía 2:14-22

14 Er Ísrael þræll, eða er hann heimafætt þý? Hví er hann orðinn að herfangi?

15 Ljón grenjuðu móti honum, hófu upp öskur sitt og gjörðu land hans að auðn. Borgir hans voru brenndar, urðu mannauðar.

16 Nóf-menn og Takpanes-menn reyttu á þér skallann.

17 Hefir þú ekki bakað þér þetta með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn, þá er hann leiddi þig á veginum?

18 Og nú, hvað þarft þú að fara til Egyptalands? Til þess að drekka vatn úr Níl? Og hvað þarft þú að fara til Assýríu? Til þess að drekka vatn úr Efrat?

19 Vonska þín mun aga þig og fráhvarf þitt refsa þér. Þú skalt fá að kenna á því og reyna það, hve illt og beiskt það er, að þú yfirgafst Drottin, Guð þinn. Þú hafðir ekki ótta fyrir mér _ segir herrann, Drottinn allsherjar.

20 Fyrir löngu hefir þú sundurbrotið ok þitt, slitið böndin og sagt: "Ég vil ekki þjóna!" Því að á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré lagðist þú niður og hóraðist.

21 En ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, eintómt úrvalssæði, hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga.

22 Já, þótt þú þvægir þér með lút og brúkaðir mikla sápu á þig, þá verður samt misgjörð þín óhrein fyrir mér _ herrann Drottinn segir það.

Matteusarguðspjall 20:20-28

20 Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.

21 Hann spyr hana: "Hvað viltu?" Hún segir: "Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri."

22 Jesús svarar: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?" Þeir segja við hann: "Það getum við."

23 Hann segir við þá: "Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum."

24 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo.

25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu.

26 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.

27 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar,

28 eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society