Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Móse sagði við Drottin: "Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.` En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.`
13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður."
14 Drottinn sagði: "Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld."
15 Móse sagði við hann: "Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan.
16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?"
17 Þá sagði Drottinn við Móse: "Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni."
18 En Móse sagði: "Lát mig þá sjá dýrð þína!"
19 Hann svaraði: "Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna."
20 Og enn sagði hann: "Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið."
21 Drottinn sagði: "Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu.
22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá.
23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð."
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem er í Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Náð sé með yður og friður.
2 Vér þökkum ávallt Guði fyrir yður alla, er vér minnumst yðar í bænum vorum.
3 Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist.
4 Guð elskar yður, bræður, og vér vitum, að hann hefur útvalið yður.
5 Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. Þér vitið, hvernig vér komum fram hjá yður, yðar vegna.
6 Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins, er þér tókuð á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.
7 Þannig eruð þér orðnir fyrirmynd öllum trúuðum í Makedóníu og í Akkeu.
8 Frá yður hefur orð Drottins hljómað, ekki einungis í Makedóníu og Akkeu, heldur er trú yðar á Guð kunn orðin alls staðar. Vér þurfum ekkert um það að tala,
9 því að þeir segja sjálfir, á hvern hátt vér komum til yðar og hvernig þér sneruð yður til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði,
10 og væntið nú sonar hans frá himnum, sem hann vakti upp frá dauðum, Jesú, er frelsar oss frá hinni komandi reiði.
15 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín, hvernig þeir gætu flækt hann í orðum.
16 Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum, og þeir segja: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun.
17 Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"
18 Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: "Hví freistið þér mín, hræsnarar?
19 Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt." Þeir fengu honum denar.
20 Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?"
21 Þeir svara: "Keisarans." Hann segir: "Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er."
22 Þegar þeir heyrðu þetta, undruðust þeir, og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.
by Icelandic Bible Society