Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.
2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.
13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.
14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.
15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.
16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.
30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.
31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
4 Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: "Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins."
2 Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður.
3 Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar.
4 En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra.
5 Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.
6 Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur?
7 Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?"
8 Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.
9 Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?"
10 Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!
11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi.
12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni."
13 Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana!
14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig."
15 Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.
16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.
2 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.
2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.
3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?
4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?
5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:
7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,
8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.
9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.
10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.
11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.
by Icelandic Bible Society