M’Cheyne Bible Reading Plan
27 Jótam var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir.
2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans. Þó fór hann eigi inn í musteri Drottins. En lýðurinn aðhafðist enn óhæfu.
3 Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins, og af Ófelmúr byggði hann mikið.
4 Þá reisti hann og borgir í Júdafjöllum, og í skógunum reisti hann hallir og turna.
5 Hann átti og í ófriði við konunga Ammóníta og vann sigur á þeim. Guldu Ammónítar honum það ár hundrað talentur silfurs, tíu þúsund kór hveitis og tíu þúsund kór byggs. Færðu Ammónítar honum þetta einnig annað og þriðja árið.
6 Varð Jótam þannig æ voldugri, því að hann gekk veg sinn fyrir augliti Drottins, Guðs síns.
7 Það sem meira er að segja um Jótam og um alla bardaga hans og fyrirtæki, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.
8 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem.
9 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn í Davíðsborg. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.
28 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, svo sem Davíð forfaðir hans,
2 heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga, og lét auk þess gjöra steypt líkneski, Baölunum til handa.
3 Hann brenndi og reykelsi í Hinnomssonardal, lét sonu sína ganga gegnum eldinn, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
4 Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.
5 Þá gaf Drottinn, Guð hans, hann á vald Sýrlandskonungi, og unnu þeir sigur á honum og höfðu burt með sér hernumda fjöldamarga af mönnum hans, og fluttu til Damaskus. Auk þessa var hann og gefinn Ísraelskonungi á vald, og vann hann mikinn sigur á honum.
6 Og Peka Remaljason drap á einum degi í Júda hundrað og tuttugu þúsundir, allt hrausta menn, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.
7 En Síkrí, kappi úr Efraím, drap Maaseja konungsson og Asríkam hallarstjóra og Elkana, er næstur gekk konungi.
8 Og Ísraelsmenn höfðu burt með sér tvö hundruð þúsund af herteknu fólki frá frændum sínum, konur, sonu og dætur, tók af þeim afar mikið herfang og fóru með herfangið til Samaríu.
9 En þar var spámaður Drottins, er Ódeð hét. Hann fór út, gekk fram fyrir herinn, er kom til Samaríu, og mælti til þeirra: "Sjá, af því að Drottinn, Guð feðra yðar, var reiður Júdamönnum, gaf hann þá yður á vald, svo að þér gátuð drepið þá niður með þeirri reiði, er nær til himins.
10 Og nú hyggið þér að gjöra þessa Júdamenn og Jerúsalembúa að þrælum yðar og ambáttum. En eruð þér þá eigi sjálfir sekir við Drottin, Guð yðar?
11 Hlýðið því á mig og sendið aftur fangana, er þér hafið haft burt hernumda frá frændum yðar, því að hin brennandi reiði Drottins vofir yfir yður."
12 Þá risu nokkrir af höfðingjum Efraímíta, þeir Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson upp í gegn þeim, er komu úr herförinni,
13 og sögðu við þá: "Þér skuluð eigi fara með fangana hingað, því að þér ætlið að auka við syndir vorar og sekt, í viðbót við sekt þá við Drottin, er á oss hvílir. Því að sekt vor er mikil, og brennandi reiði vofir yfir Ísrael."
14 Þá slepptu hermennirnir föngunum og herfanginu í viðurvist höfuðsmannanna og alls safnaðarins.
15 Gengu þá til menn þeir, er til þess voru kvaddir með nafni, og önnuðust fangana. Klæddu þeir af herfanginu alla þá, er naktir voru meðal þeirra, gáfu þeim klæði og skó og að eta og drekka og smurðu þá, settu alla þá á asna, er uppgefnir voru, og fluttu þá til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til frænda þeirra, og sneru síðan heim aftur til Samaríu.
16 Um þessar mundir sendi Akas konungur til Assýríukonunga til þess að biðja sér liðveislu.
17 Þá komu og Edómítar, unnu sigur á Júdamönnum og færðu burt bandingja.
18 En Filistar réðust inn í borgirnar á láglendinu og í Júda sunnanverðu, tóku Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó og þorpin umhverfis hana, Timna og þorpin umhverfis hana og Gimsó og þorpin umhverfis hana, og settust þar að.
19 Því að Drottinn lægði Júda sakir Akasar Ísraelskonungs, því að hann hafði framið gegndarlausa óhæfu í Júda og sýnt Drottni mikla ótrúmennsku.
20 Þá fór Tílgat-Pilneser Assýríukonungur í móti honum og kreppti að honum, en veitti honum eigi lið.
21 Því að Akas ruplaði musteri Drottins og konungshöllina og höfuðsmennina, og gaf Assýríukonungi, en það kom honum að engu haldi.
22 Og um þær mundir, sem hann kreppti að honum, sýndi hann, Akas konungur, Drottni ótrúmennsku enn að nýju.
23 Hann færði fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og mæltu: "Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér." En þeir urðu honum og öllum Ísrael til falls.
24 Og Akas safnaði saman áhöldum Guðs húss og braut sundur áhöld Guðs húss. Hann lokaði og dyrunum á musteri Drottins, en gjörði sér ölturu í hverju horni í Jerúsalem.
25 Og í sérhverri Júdaborg gjörði hann fórnarhæðir til þess að brenna reykelsi fyrir öðrum guðum, og egndi þannig Drottin, Guð feðra sinna, til reiði.
26 Það sem meira er að segja um hann og öll fyrirtæki hans, bæði fyrr og síðar, það er ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.
27 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í borginni, í Jerúsalem, því að eigi var hann færður í grafir Ísraelskonunga. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.
14 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.
2 Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar.
3 Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni.
4 Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.
5 Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.
6 Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,
7 og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."
8 Og enn annar engill kom á eftir og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns."
9 Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: "Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína,
10 þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins.
11 Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess."
12 Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.
13 Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."
14 Og ég sá, og sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð.
15 Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: "Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað."
16 Og sá, sem á skýinu sat, brá sigð sinni á jörðina og upp var skorið á jörðinni.
17 Og annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka bitra sigð.
18 Og annar engill gekk út frá altarinu, hann hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess, sem hafði bitru sigðina: "Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð."
19 Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu.
20 Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af vínþrönginni, svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.
10 Biðjið Drottin um regn. Hann veitir vorregn og haustregn á réttum tíma. Helliskúrir og steypiregn gefur hann þeim, hverri jurt vallarins.
2 Húsgoðin veittu fánýt svör, og spásagnamennirnir sáu falssýnir. Þeir kunngjöra aðeins hégómlega drauma og veita einskisverða huggun. Fyrir því héldu þeir áfram eins og hjörð, eru nú nauðulega staddir, af því að enginn er hirðirinn.
3 Gegn hirðunum er reiði mín upptendruð og forustusauðanna skal ég vitja. Því að Drottinn allsherjar hefir litið til hjarðar sinnar, Júda húss, og gjört þá að skrauthesti sínum í stríðinu.
4 Frá þeim kemur hornsteinninn, frá þeim kemur tjaldhællinn, frá þeim kemur herboginn, frá þeim koma allir saman hershöfðingjarnir.
5 Þeir munu í stríðinu verða eins og hetjur, sem troða niður saurinn á strætunum, og þeir munu berjast vasklega, því að Drottinn er með þeim, svo að þeir verða til skammar, sem hestunum ríða.
6 Ég gjöri Júda hús sterkt, og Jósefs húsi veiti ég hjálp. Ég leiði þá aftur heim, því að ég aumkast yfir þá, og þeir skulu vera eins og ég hefði aldrei útskúfað þeim. Því að ég er Drottinn, Guð þeirra, og ég vil bænheyra þá.
7 Þá munu Efraímsmenn verða eins og hetjur og hjarta þeirra gleðjast eins og af víni. Börn þeirra munu sjá það og gleðjast, hjarta þeirra skal fagna yfir Drottni.
8 Ég vil blístra á þá og safna þeim saman, því að ég hefi leyst þá, og þeir skulu verða eins fjölmennir og þeir forðum voru.
9 Ég sáði þeim út meðal þjóðanna, en í fjarlægum löndum munu þeir minnast mín og uppala þar börn sín og snúa síðan heim.
10 Ég mun leiða þá heim aftur frá Egyptalandi og safna þeim saman frá Assýríu. Ég leiði þá inn í Gíleaðland og inn á Líbanon, og skorta mun landrými fyrir þá.
11 Þeir fara yfir Egyptalandshaf, og hann lýstur hið bárótta haf, og allir álar Nílfljótsins þorna. Hroki Assýríu skal niður steypast og veldissprotinn víkja frá Egyptalandi.
12 Ég vil gjöra þá sterka í Drottni, og af hans nafni skulu þeir hrósa sér _ segir Drottinn.
13 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.
2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú.
3 Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs.
4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig.
5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig.
6 Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: "Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?"
7 Jesús svaraði: "Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það."
8 Pétur segir við hann: "Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína." Jesús svaraði: "Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér."
9 Símon Pétur segir við hann: "Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið."
10 Jesús segir við hann: "Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir."
11 Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: "Þér eruð ekki allir hreinir."
12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: "Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður?
13 Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég.
14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.
15 Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.
16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann.
17 Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.
18 Ég tala ekki um yður alla. Ég veit, hverja ég hef útvalið. En ritningin verður að rætast: ,Sá sem etur brauð mitt, lyftir hæli sínum móti mér.`
19 Ég segi yður þetta núna, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það er orðið, að ég er sá sem ég er.
20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig."
21 Þegar Jesús hafði sagt þetta, varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."
22 Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki, við hvern hann ætti.
23 Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum.
24 Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um.
25 Hann laut þá að Jesú og spurði: "Herra, hver er það?"
26 Jesús svaraði: "Það er sá sem ég fæ bita þann, er ég dýfi nú í." Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi Símonarsyni Ískaríots.
27 Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: "Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!"
28 En enginn þeirra, sem sátu til borðs, vissi til hvers hann sagði þetta við hann.
29 En af því að Júdas hafði pyngjuna, héldu sumir þeirra, að Jesús hefði sagt við hann: "Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar," _ eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum.
30 Þá er hann hafði tekið við bitanum, gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt.
31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: "Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum.
32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan.
33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.
34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.
35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars."
36 Símon Pétur segir við hann: "Herra, hvert ferðu?" Jesús svaraði: "Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér."
37 Pétur segir við hann: "Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig."
38 Jesús svaraði: "Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar."
by Icelandic Bible Society