M’Cheyne Bible Reading Plan
12 Síðan gekk hann fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum _
13 því að Salómon hafði gjöra látið pall af eiri og sett í miðjan forgarðinn. Var hann fimm álnir á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. Sté hann upp á hann, féll á kné í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum til himins
14 og mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himni eða jörðu, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu,
15 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið.
16 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð, föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu sína með því að ganga eftir lögmáli mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.`
17 Og lát nú, Drottinn, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við Davíð þjón þinn.
18 En mun Guð í sannleika búa með mönnum á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.
19 En snú þér, Drottinn, Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig:
20 að augu þín séu opin fyrir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt, að þar skulir þú láta nafn þitt búa, _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað.
21 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir bera fram á þessum stað, já, heyr þú hana frá aðseturstað þínum, frá himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.
22 Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu,
23 þá heyr þú það frá himnum, lát til þín taka og dæm þjóna þína, með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans.
24 Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað á móti þér, og þeir snúa sér og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi,
25 þá heyr þú það frá himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, er þú gafst þeim og feðrum þeirra.
26 Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá,
27 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, er þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar.
28 Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða einhver plága eða sótt _
29 ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni, af því að hann finnur til angurs og sársauka og fórnar höndum til þessa húss,
30 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans _ því að þú einn þekkir hjörtu manna _
31 til þess að þeir óttist þig og gangi á vegum þínum alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum.
32 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi sakir þíns mikla nafns, þinnar sterku handar og þíns útrétta armleggs _ ef þeir koma hingað og biðja frammi fyrir þessu húsi,
33 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.
34 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til borgar þessarar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,
35 þá heyr þú frá himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra.
36 Ef þeir syndga í gegn þér _ því að enginn er sá er eigi syndgi _ og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til lands, langt eða skammt í burtu,
37 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í útlegðarlandi sínu og segja: ,Vér höfum syndgað, vér höfum misgjört og vér höfum breytt óguðlega,`
38 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í útlegðarlandi sínu, þangað sem þeir hafa flutt þá hernumda, og þeir biðjast fyrir og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni,
39 þá heyr þú frá himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, rétt þú hlut þeirra og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér.
40 Svo veri þá, Guð minn, augu þín opin og eyru þín gaumgæfin á bæn þá, er fram er borin á þessum stað.
41 Tak þig þá upp, Drottinn Guð, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns. Prestar þínir, Drottinn Guð, séu klæddir hjálpræði, og þínir guðhræddu gleðjist yfir gæfunni.
42 Drottinn Guð, vísa þínum smurða eigi frá, minnst þú náðarveitinganna við Davíð þjón þinn."
5 Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.
2 Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.
3 Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,
4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?
6 Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.
7 Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:]
8 Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman.
9 Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn.
10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn.
11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans.
12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.
13 Þetta hef ég skrifað yður, sem trúið á nafn Guðs sonar, til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf.
14 Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.
15 Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um.
16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja.
17 Allt ranglæti er synd, en til er synd, sem ekki er til dauða.
18 Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir hann og hinn vondi snertir hann ekki.
19 Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.
20 Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.
1 Spádómur, sem opinberaður var Habakkuk spámanni.
2 Hversu lengi hefi ég kallað, Drottinn, og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: "Ofríki!" og þú hjálpar ekki!
3 Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.
4 Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.
5 Lítið upp, þér hinir sviksömu, og litist um! Fallið í stafi og undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum _ þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því.
6 Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til þess að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki.
7 Ægileg og hræðileg er hún, frá henni sjálfri út gengur réttur hennar og tign.
8 Hestar hennar eru frárri en pardusdýr og skjótari en úlfar að kveldi dags. Riddarar hennar þeysa áfram, riddarar hennar koma langt að. Þeir fljúga áfram eins og örn, sem hraðar sér að æti.
9 Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk, brjótast beint áfram og raka saman herteknum mönnum eins og sandi.
10 Þeir gjöra gys að konungum, og höfðingjar eru þeim að hlátri. Þeir hlæja að öllum virkjum, hrúga upp mold og vinna þau.
11 Þeir fá nýjan kraft og brjótast áfram og gjörast brotlegir, _ þeir sem trúa á mátt sinn og megin.
12 Ert þú, Drottinn, ekki Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr? Drottinn, þú hefir falið þeim að framkvæma dóm. Bjargið mitt, þú hefir sett þá til að refsa.
13 Augu þín eru of hrein til þess að líta hið illa, og þú getur ekki horft upp á rangsleitni. Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari?
14 Og þannig hefir þú látið mennina verða eins og fiska sjávarins, eins og skriðkvikindin, sem engan drottnara hafa.
15 Þeir draga þá alla upp á öngli sínum, hrífa þá í net sitt og safna þeim í vörpu sína. Fyrir því gleðjast þeir og fagna,
16 fyrir því færa þeir neti sínu sláturfórn og vörpu sinni reykelsisfórn. Því að þau afla þeim ríkulegs hlutskiptis og ríflegs matar.
17 Fyrir því bregða þeir sverði sínu án afláts til þess að drepa þjóðir vægðarlaust.
20 Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans
2 og sögðu: "Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?"
3 Hann svaraði þeim: "Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér:
4 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?"
5 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?
6 Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður."
7 Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri.
8 Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."
9 Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.
10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.
11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.
12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.
13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.`
14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.`
15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?
16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn." Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."
17 Jesús horfði á þá og mælti: "Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn?
18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja."
19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.
20 Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans.
21 Þeir spurðu hann: "Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.
22 Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"
23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá:
24 "Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?" Þeir sögðu: "Keisarans."
25 En hann sagði við þá: "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."
26 Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.
27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.
29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.
30 Gekk þá annar bróðirinn
31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.
32 Síðast dó og konan.
33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."
34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,
35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.
36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.
37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."
39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari."
40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.
41 Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?
42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,
43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.
44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"
45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:
46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.
47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."
by Icelandic Bible Society