Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 24

24 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: "Far þú og tel Ísrael og Júda."

Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: "Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er."

Jóab svaraði konungi: "Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn _ hversu margir, sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?"

En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael.

Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser.

Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon.

Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba.

En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem.

Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns.

10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: "Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi:

12 "Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: "Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig."

14 Þá sagði Davíð við Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns.

16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta.

17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: "Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína."

18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: "Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta."

19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað.

20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi.

21 Og Aravna mælti: "Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?" Davíð svaraði: "Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum."

22 Aravna svaraði Davíð: "Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar.

23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum." Og Aravna mælti við konung: "Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!"

24 En konungur sagði við Aravna: "Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið." Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.

Fyrri Kroníkubók 21-22

21 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.

Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."

Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"

En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.

Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.

En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.

En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.

Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:

10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,

12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."

13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.

15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.

16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.

17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."

18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins.

20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti.

21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð.

22 Þá mælti Davíð við Ornan: "Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari _ skalt þú selja mér það fullu verði _ og plágunni megi létta af lýðnum."

23 Ornan svaraði Davíð: "Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það."

24 En Davíð konungur sagði við Ornan: "Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið."

25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn.

26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið.

27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt.

28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir.

29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon.

30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.

22 Og Davíð mælti: "Þetta sé hús Drottins Guðs, og þetta sé altari fyrir brennifórnir Ísraels."

Og Davíð bauð að stefna saman útlendingum þeim, er voru í Ísraelslandi, og hann setti steinhöggvara til þess að höggva til steina, til þess að reisa af musteri Guðs.

Davíð dró og að afar mikið af járni í nagla á hliðhurðirnar og í spengurnar, og svo mikið af eiri, að eigi varð vegið,

og sedrustré, svo að eigi varð tölu á komið, því að Sídoningar og Týrverjar færðu Davíð afar mikið af sedrustrjám.

Davíð hugsaði með sér: "Salómon sonur minn er ungur og óþroskaður, en musterið, er Drottni á að reisa, á að vera afar stórt, til frægðar og prýði um öll lönd. Ég ætla því að viða að til þess." Og Davíð viðaði afar miklu að fyrir andlát sitt.

Síðan kallaði hann Salómon son sinn, og fól honum að reisa musteri Drottni, Guði Ísraels.

Og Davíð mælti við Salómon: "Sonur minn! Ég hafði í hyggju að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns.

En orð Drottins kom til mín, svolátandi: Þú hefir úthellt miklu blóði og háð miklar orustur. Þú skalt eigi reisa musteri nafni mínu, því að miklu blóði hefir þú hellt til jarðar fyrir augliti mínu.

En þér mun sonur fæðast. Hann mun verða kyrrlátur maður, og ég mun veita honum ró fyrir öllum fjandmönnum hans allt um kring, því að Salómon skal hann heita, og ég mun veita frið og kyrrð í Ísrael um hans daga.

10 Hann skal reisa musteri nafni mínu, hann skal vera mér sonur og ég honum faðir, og ég mun staðfesta konungsstól hans yfir Ísrael að eilífu.

11 Drottinn sé nú með þér, sonur minn, svo að þú verðir auðnumaður og reisir musteri Drottins, Guðs þíns, eins og hann hefir um þig heitið.

12 Veiti Drottinn þér aðeins hyggindi og skilning og skipi þig yfir Ísrael, og að þú megir varðveita lögmál Drottins, Guðs þíns.

13 Þá munt þú auðnumaður verða, ef þú varðveitir setninga þá og boðorð og breytir eftir þeim, er Drottinn lagði fyrir Móse um Ísrael. Ver þú hughraustur og öruggur! Óttast ekki og ver hvergi hræddur.

14 Sjá, þrátt fyrir þrautir mínar hefi ég dregið að til musteris Drottins hundrað þúsund talentur gulls, milljón talentur silfurs, og svo mikið af eiri og járni, að eigi verður vegið, því að afar mikið er af því. Viða og steina hefi ég einnig aflað, og mátt þú þar enn við auka.

15 Með þér er og margt starfsmanna, steinhöggvarar, steinsmiðir og trésmiðir og alls konar hagleiksmenn til alls konar smíða

16 af gulli, silfri, eiri og járni, er eigi verður tölu á komið. Upp nú, og tak til starfa og Drottinn sé með þér."

17 Og Davíð bauð öllum höfðingjum Ísraels að liðsinna Salómon syni sínum og mælti:

18 "Drottinn Guð yðar er með yður og hefir veitt yður frið allt um kring, því að hann hefir selt frumbyggja landsins mér á vald, og landið er undirokað fyrir augliti Drottins og fyrir augliti lýðs hans.

19 Beinið þá hjörtum yðar og hug yðar að því að leita Drottins, Guðs yðar. Takið yður til og reisið helgidóm Drottins Guðs, svo að þér getið flutt sáttmálsörk Drottins og hin helgu áhöld Guðs í musterið, er reisa á nafni Drottins."

Sálmarnir 30

30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.

Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.

Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.

Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."

Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.

Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:

10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?

11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,

13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society