Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 89

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.

40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.

41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.

42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.

43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.

44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.

45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.

46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?

48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.

49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?

51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,

52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 100-101

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

Sálmarnir 105

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Sálmarnir 132

132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,

hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:

"Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,

eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,

fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."

Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.

Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.

Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.

Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.

10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.

11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.

12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."

13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:

14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.

15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,

16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.

17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.

18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society